Fótbolti

Xavi: Mourinho fór skelfilega illa með Casillas

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Xavi og Iker Casillas.
Xavi og Iker Casillas. Mynd/AFP

Xavi, leikmaður Barcelona, er allt annað en sáttur með þá meðferð sem Iker Casillas, liðsfélagi hans úr spænska landsliðinu, fékk hjá Real Madrid á þessu tímabili. Jose Mourinho, þjálfari Real Madrid, gróðursetti Casillas á varamannabekknum á miðju tímabili og gagnrýndi hann líka ítrekað opinberlega.

„Ég ekki hrifinn af því að sjá svona mikilvægan leikmann eins og Iker þurfa að ganga í gegnum slíkt," sagði Xavi á blaðamannafundi. „Þetta er skelfilegt og ég skil þetta ekki. Fyrir stuttu síðan voru þeir að mæla með honum sem mögulegan handhafa gullboltans og nú vilja þeir ekkert með hann hafa," sagði Xavi.

„Hann er vinur munn og hann er fyrirmynd fyrir fjölda fólks. Hann er fyrirliði spænska landsliðsins og á þetta ekki skilið," sagði Xavi.

Xavi hefur verið að glíma við meiðsli á þessu tímabili og mörgum þykir ljóst að kappinn er farinn að eldast.

„Ég er líkamlega tilbúinn að halda áfram og þess vegna skrifaði ég undir nýjan þriggja ára samning," sagði hinn 33 ára gamli Xavi.

„Ég gef enn kost á mér í spænska landsliðið og ég vil fá að vera með í Álfukeppninni í sumar og á HM 2014. Ég vil halda áfram að spila á hæsta stigi og tel mig geta það," sagði Xavi sem varð á dögunum spænskur meistari í sjöunda sinn á ferlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×