Fótbolti

Barcelona fór illa með Santos í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AFP
Barcelona tryggði sér sigur í hinum árlega leik um Joan Gamper bikarinn í kvöld með því rúlla yfir brasilíska félagið Santos á Camp Nou. Barcelona vann leikinn 8-0 en liðið keypti einmitt Neymar, stærstu stjörnu Santos, fyrr í sumar. Cesc Fàbregas skoraði tvö mörk eftir að hafa komið inn á sem varamaður og Neymar lagði upp sitt fyrsta mark fyrir Börsunga.

Barcelona býður liði á Camp Nou á undirbúningstímabilinu á hverju ári til þess að spila einn leik um Joan Gamper bikarinn sem var nú afhentur í 48. sinn. Barcelona hefur nú unnið bikarinn 36 sinnum.

Lionel Messi skoraði fyrsta markið á 7. mínútu og þremur mínútum síðar sendi leikmaður Santos boltann í eigið mark. Alexis Sánchez kom Barca síðan í 3-0 á 21. mínútu eftir sendingu frá Messi.

Pedro skoraði fjórða markið á 28. mínútu eftir sendingu frá Jordi Alba og úrslitin voru fyrir löngu ráðin enda máttu Brassarnir sín lítils á móti gríðarlega sterku liði Barcelona.

Cesc Fàbregas og Neymar komu báði inn á í hálfeik og Fàbregas skoraði fimmta markið á 53. mínútu. Messi var síðan tekinn af velli á 64. mínútu en það breytti litlu. Fàbregas skoraði sjötta markið fjórum mínútum síðar eftir sendingu frá Neymar.

Adriano skoraði sjöunda markið á 75. mínútu og Jean Marie Dongou, sem kom inn á fyrir Messi, það áttunda á 84. mínútu eftir sendingu frá Fàbregas. Þannig urðu lokatölurnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×