„Fólk er gengið af göflunum. Vegfarendur knúsa okkur og kyssa á götum Reykjavíkur. Þá eru fjölmiðlar í skýjunum.“
Þetta hefur norska dagblaðið Verdens Gang eftir Birki Má Sævarssyni, hægri bakverði íslenska landsliðsins í knattspyrnu. Norðmenn sýna Birki mikinn áhuga enda hefur hann verið í aðalhlutverki hjá Brann frá því hann hélt utan sumarið 2008.
„Leikurinn á móti Noregi er sá mikilvægasti í sögu Íslands,“ segir Birkir og líkir velgengni Íslands við árangur norska landsliðsins undir stjórn Egils „Drillo“ Olsen á tíunda áratugnum. Þá fóru Norðmenn í tvígang í lokakeppni heimsmeistaramótsins og lögðu meðal annars Brasilíu að velli í Frakklandi 1998.
„Þetta er í okkar höndum. Norðmenn munu þó klárlega gera allt sem þeir geta til að eyðileggja fyrir okkur. Ég trúi ekki að þeir vilji að við förum í umspilið,“ segir Birkir Már.
