Íslenska kvennalandsliðið er í Serbíu að undirbúa sig fyrir leik á móti heimastúlkum í undankeppni HM en íslenska liðið verður helst að vinna þennan leik til að eiga alvöru möguleika á að komast upp úr riðlinum.
Það kemur fram á heimasíðu KSÍ að liðið hafi æft tvisvar sinnum í dag en þar kemur fram að æfingaaðstaðan í Belgrad sé frábær. Veðrið hefur leikið við hópinn og æfingavöllurinn er í frábæru ásigkomulagi. Hitinn í dag var um 25 stig og heiðskírt og er búist við því sama á morgun.
Spáin á leikdag er öðruvísi en þá er búist við að skýjuðu veðurfari og um 15 stiga hita sem eru góðar fréttir fyrir okkar stelpur. Leikurinn hefst kl. 14:00 að staðartíma á fimmtudaginn eða kl. 13:00 að íslenskum tíma.
Allir leikmenn eru heilir og tóku fullan þátt á æfingunum í dag, Á morgun verður æft á keppnisvellinum, FK Obilic Stadium, en hann er í um hálftíma akstursfjarlægð frá hóteli hópsins.
Hilmar Þór Guðmundsson, nýr starfsmaður KSÍ í Fjölmiðla- og markaðsmálum, er með í för og tók flottar myndir af stelpunum á æfingu í Belgrad í dag. Það er hægt að sjá þessar myndir hér fyrir ofan.
