Tónlist

Tónleikum Elton John í Rússlandi ekki aflýst

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Elton John er ötull baráttumaður fyrir réttindum hinsegin fólks.
Elton John er ötull baráttumaður fyrir réttindum hinsegin fólks. mynd/getty
Ekki stendur til að aflýsa tvennum tónleikum breska tónlistarmannsins Elton John í Rússlandi um helgina þrátt fyrir að söngvarinn hafi sagst ætla að tjá sig á sviði um málefni hinsegin fólks í Rússlandi.

Vladimir Pútín, forseti Rússlands, undirritaði lög í sumar sem banna „áróður samkynhneigðra“ sem beinist að ungmennum. Í síðasta mánuði lofaði söngvarinn í viðtali við CNN að hann myndi tjá sig á tónleikunum um þessi umdeildu lög, en þeir verða haldnir í Moskvu í kvöld og borginni Kazan annað kvöld. Einnig hyggst hann hitta fólk úr samfélagi hinsegin fólks í borgunum.

Tónleikahaldarinn, SAV Entertainment, hefur sent frá sér yfirlýsingu þess efnis að ekki standi til að aflýsa tónleikum, þrátt fyrir þrálátan orðróm um annað.

John sagði í samtali við CNN að hann ætlaði sér þó að vanda orð sín, þar sem hann vill ekki láta vísa sér úr landi.

Tónleikahaldarar sem stóðu á bak við tónleika Lady Gaga í Pétursborg í fyrra voru sektaðir í síðasta mánuði fyrir að brjóta fyrrnefnd lög. Var það í kjölfar þess að tónlistarkonan tjáði sig um réttindi hinsegin fólks í Rússlandi á tónleikum.


Tengdar fréttir

Skorar á Vesturlönd að setja rússneska þingmenn í ferðabann

Nikolai Alekseev lögfræðingur og leiðtogi réttindahreyfingar samkynhneigðra í Rússlandi segir að það hafi ekkert upp á sig að sniðganga vörur eins og Stolichnaya vodka til að þrýsta á rússnesk stjórnvöld að bæta ráð sitt varðandi mannréttindi hinsegin fólks.

Fry líkir Pútín við Hitler

Sjónvarpsmaðurinn og grínistinn Stephen Fry hefur bæst í hóp þeirra sem eru á móti því að Vetrarólympíuleikarnir árið 2014 fari fram í Rússlandi.

Forstjóri Stolichnaya Vodka fordæmir rússnesk stjórnvöld

Aðalforstjóri Stolichnaya Vodka hefur í opnu bréfi til hinsegin samfélagsins um allan heim fordæmt stefnu rússneskra stjórnvalda varðandi réttindi hinsegin fólks og sver af sér öll tengsl við rússnesk stjórnvöld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×