Atletico Madrid fór létt með Valencia í lokaleik helgarinnar í spænsku úrvalsdeildinni. Liðið vann 3-0 sigur og er aftur upp að hlið Barcelona á toppi deildarinnar.
Diego Costa skoraði tvö mörk fyrir Atletico í kvöld, það síðara úr vítaspyrnu. Costa var þá reyndar búinn að brenna af einni vítaspyrnu en bætti upp fyrir það undir lok leiksins.
Raul Garcia skoraði einnig fyrir Atletico í kvöld en liðið er með 43 stig, fimm stigum meira en grannarnir í Real Madrid sem sitja í þriðja sætinu.
Costa hefur nú skorað sautján mörk í deildinni í vetur, rétt eins og Cristiano Ronaldo hjá Real. Báðir eru með rétt rúmlega mark að meðaltali í leik.
Úrslit dagsins:
Almeria - Espanyol 0-0
Real Sociedad - Betis 5-1
Sevilla - Athletic 1-1
Atletico - Valencia 3-0

