Skoðun

Brettum upp ermar í umgengni við náttúruna!

Ingunn St. Svavarsdóttir skrifar
Það þarf enginn að segja mér að við séum ekki allir Íslendingar slegnir yfir því hvernig komið er fyrir Lagarfljótinu! Látum það verða okkur lexía til að læra af. Ákvæði nýrrar stjórnarskrár kveða m.a. á um að fyrri spjöll skuli bætt eftir föngum. Almenningi og hagsmunaaðilum verður með nýrri stjórnarskrá gert kleift að leita til dómstóla um ákvarðanir stjórnvalda, sem áhrif hafa á umhverfi og náttúru – og jafnframt verður komið í veg fyrir að slíkum málum verði vísað frá vegna skorts á lögmætum hagsmunum. Lýðræðisvaktin vill virkja okkur, fólkið sjálft, til ábyrgðar og ákvörðunar um eigin mál!

Stoltið okkar, Vatnajökulsþjóðgarður, með öllum sínum náttúruperlum, auðnum og fágætri fegurð er dýrmæti sem okkur ber að standa vörð um. Við gætum a.m.k. til jafns við utanlandsreisurnar farið í vettvangskannanir um landið okkar þvert og endilangt með skólabörnin okkar – frætt þau og kennt þeim að meta, njóta, ganga vel um og þykja vænt um íslenska náttúru. Lýðræðisvaktin vill standa vörð um rétt okkar og komandi kynslóða til óspilltrar náttúru.

Óspillt náttúra og hreint óspillt umhverfi heyra til lífsgæða og mannréttinda eins og kveðið er á um í nýrri stjórnarskrá.

Okkur hefur borið af leið, en ef við tökum höndum saman nú þegar þá getum við

1) kennt börnunum okkar frá leikskólaaldri og upp úr að umgangast íslensku viðkvæmu náttúruna okkar af virðingu og þakklæti,

2) krafist þess að ánauð ferðamanna á viðkvæma staði sé stjórnað með ítölu og/eða með hæfilegu gjaldi til að grípa til varúðar- og verndarráðstafana í tæka tíð á þeim stöðum sem nauðsyn krefur,

3) aukið umhverfisvöktun.

Lýðræðisvaktin vill að lög um land og nýtingu þess séu í samræmi við nýja stjórnarskrá með almannahag að leiðarljósi.




Skoðun

Sjá meira


×