Skoðun

Hvað gerir forsetinn?

Bolli Héðinsson skrifar
Í Icesave-samningunum, sem vísað var til í þjóðaratkvæðagreiðslu, var tekist á um hvort almenningur tæki á sig ábyrgð á fjárskuldbindingum sem samið hafði verið um við erlenda aðila ef eignir þrotabús Landsbankans dygðu ekki til. Þjóðin hafnaði ábyrgð á þeirri fjárskuldbindingu.

Nú eru aftur uppi hugmyndir um að leggja byrðar á þjóðina sem Alþingi hefur samþykkt að útgerðin í landinu beri. Stjórnvöld hafa sett fram hugmyndir um að láta almenning taka á sig þessar byrðar en létta þeim af útgerðinni. Spurningin sem við stöndum því frammi fyrir er sú hvort forsetinn muni reynast brjóstvörn almennings gegn íþyngjandi álögum stjórnvalda með ámóta hætti og í Icesave. Fjármunir sem létt er af útgerð verða ekki sóttir annað en í vasa almennings. Veiðigjaldi sem aflétt er af útgerð verður ekki ráðstafað til skuldalækkunar heimilanna heldur verður það, þvert á móti, lagt á herðar almennings, þó síðar verði. Hverjir höldum við að séu betur aflögufærir, almenningur eða útgerðin?

Á að rjúfa sáttina um veiðigjaldið?

Þrátt fyrir þá ágalla sem kunna að vera á því kerfi veiðigjalda sem fyrri ríkisstjórn stóð fyrir þá er sú leið sem farin var samt sem áður fyrsta alvöru tilraunin til að ná sátt við þjóðina um að útgerðin greiði eitthvað sem kalla mætti sanngjarnt verð fyrir afnot sín af auðlindinni. Hugmyndir núverandi ríkisstjórnar um veiðigjald virðast hins vegar ganga út á að gjaldið sé einhver afgangsstærð og fjárhæð gjaldsins eigi að ráðast af því hvernig fyrirtækið stendur þegar allur kostnaður og misvitur ráðstöfun fjármuna fyrirtækisins hefur verið dregin frá. Með því er í raun fallið frá auðlindagjaldi.

Eigi auðlindagjald að rísa undir nafni þá ræðst upphæð þess fyrst og fremst af því magni sem sótt er í auðlindina, en ekki af afkomu fyrirtækjanna, frekar en önnur aðföng. Þannig ráðast vextir, afborganir og kaup á veiðarfærum alls ekki af hagnaði útgerðarinnar heldur er það einfaldlega kostnaður sem standa verður skil á svo hægt sé að halda áfram rekstri. Útgerðir verða að greiða reikning veiðarfærasalans hvort sem útgerðin er rekin með reiknuðu tapi eða gróða. Hví skyldi annað gilda um kostnaðinn við aðganginn að fiskveiðiauðlindinni?




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×