Freyr Alexandersson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins, tilkynnti í gær hópinn sinn fyrir leik úti í Serbíu í undankeppni HM. Freyr gerir nokkrar breytingar frá tapinu á móti Sviss á dögunum.
Katrín Jónsdóttir, fyrirliði íslenska landsliðsins, hefur lagt skóna á hilluna. Auk hennar detta úr hópnum þær Greta Mjöll Samúelsdóttir, Ásgerður Baldursdóttir og Ólína Viðarsdóttir sem er meidd.
Selfyssingurinn Guðmunda Brynja Óladóttir, efnilegasti leikmaður Pepsi-deildar kvenna í sumar, kemur inn í hópinn og er eini ungi framherjinn í liðinu. „Guðmunda hefur æft með okkur núna síðustu vikur og virkar í mjög góðu standi. Hún hefur bætt sig mikið á milli ára. Hún er gríðarlega kröftug, hefur sprengikraft og styrk sem getur nýst okkur vel,“ sagði Freyr.
Freyr kallar líka aftur á Elísu Viðarsdóttur og Þórunni Helgu Jónsdóttur sem voru í EM-hópnum en ekki með á móti Sviss. Verða nýliðarnir í stórum hlutverkum?
„Það er erfitt að segja núna. Það munu allir hafa hlutverk. Guðmunda og Þórunn gætu báðar byrjað þess vegna. Það kemur í ljós þegar við hittumst og sjáum stöðuna á hópnum," segir Freyr.
Óvíst er hver tekur við fyrirliðabandinu hjá íslenska kvennalandsliðinu en Freyr Alexandersson vildi ekki tjá sig um hver tæki við fyrirliðabandinu á blaðmannafundi í gær. Sara Björk Gunnarsdóttir, Margrét Lára Viðarsdóttir og Sif Atladóttir eru líklegastar til að hreppa hnossið.
En hverjir eru möguleikar Íslands að komast á HM? „Það er mjög erfitt að meta möguleikana. Við eigum alveg séns en það þarf mikið að gerast. Nú er kominn sá tímapuktur að undirbúa okkur fyrir hvern einasta leik. Einn í einu. Við þurfum að gjöra svo vel að fara til Serbíu, gera vel og vinna þann leik," sagði Freyr.
