„Ég slökkti á hljóðinu, þrátt fyrir að lagið við myndbandið sé ákaflega fallegt. Ég horfði á myndbandið án hljóðs. Ég hef örugglega spilað það nokkur hundruð sinnum áður en ég kláraði lagið,“ útskýrir Pétur. Pétur er úr Garðabænum, eins og Loftur var og man eftir Lofti á þeirra yngri árum.

„Mér er það bæði skylt og ljúft að koma fram á þessum tónleikum. Þetta er sú útvarpsstöð sem hefur spilað lögin mín mest og þetta er málefni sem skiptir mig miklu máli,“ segir Pétur. Þorkell Máni Pétursson, útvarpsstjóri X-ins, tekur undir þau orð Péturs.

Allur ágóði þessara árlegu tónleika mun renna í minningarsjóð Lofts Gunnarssonar, en sjóðurinn hefur það að markmiði að bæta aðbúnað heimilislausra hér á landi. Félagarnir í Harmageddon, þeir Máni og Frosti Logason, hafa stutt við málefnið og eru ánægðir með lagið hans Pétturs.
„Við elskum þetta lag. Hugmyndavinna við myndbandið er komin af stað. Lagið hefur fengið frábærar undirtektir hérna á X-inu,“ útskýrir Máni.
Tónleikarnir fara fram á föstudaginn í Austurbæ. „Miðaverðinu er stillt í hóf, fólk borgar undir tvö hundruð krónur fyrir hverja hljómsveit sem kemur fram. Þetta verða magnaðir tónleikar. Reyndar hryggir það einhverja að þetta séu síðustu tónleikar X-ins sem Ómar Ómar útvarpsmaður X-ins er með okkur. Hann er að hætta hjá okkur og gengur til liðs við Stórveldið,“ segir Máni. Tónleikarnir bera titilinn Xmas og munu Leaves, Grísalappalísa, Drangar, Mammút, Kaleo, Ojbarasta, Þröstur upp á Heiðar, 1860, Vök og Skepna koma fram, ásamt Pétri Ben.
Miðasala er hafin á vefsíðunni midi.is.