Þegar íslenskir neytendur hlusta á slík harmakvein er gott að hafa eftirfarandi atriði í huga:
- Tollar og vörugjöld á fatnaði hafa nánast ekkert breyst undanfarin ár og eru á milli 10-15% á innfluttum fatnaði frá ríkjum sem eru utan EES og eru ekki með fríverslunarsamning við Ísland.
- Virðisaukaskattur hefur hækkað um eitt prósentustig frá 2008 – það er 1 krónu hækkun á hverjar 100 krónur.
- Þegar vörur eru pantaðar af netinu þarf að borga sendingarkostnað, tolla og íslenskan virðisaukaskatt eins og dæmið hér fyrir neðan sýnir.
- 10.000 króna vara pöntuð frá Kína
- 1.000 króna sendingarkostnaður
- 15% tollur: 2.650 krónur
- 25,5% virðisaukaskattur: 3.226 krónur
- Verð komið heim: 15.876 krónur
Að kenna verslunarferðum til útlanda um minni jólasölu er frekar langsótt. Íslendingar hafa alltaf verið öflugir í verslunarferðum og ekki kvörtuðu kaupmenn fyrir hrun, þegar dollarinn var á 60 krónur. Vissulega eru vörugjöld og virðisaukaskattur há á Íslandi, en öll verslun býr við sama veruleika, sama hvort varan er keypt í Lindum eða á Amazon.com eins og ofangreint dæmi sýnir og því myndi lækkun á vörugjöldum og tollum ekkert nýtast íslenskum kaupmönnum umfram erlenda netkaupmenn.
Það liggur fyrir að íslensk verslun er óhagkvæm, hún kaupir inn á háu verði vegna smæðar og fjarlægðar við meginlandið og hefur offjárfest gríðarlega í verslunarhúsnæði. Íslensk verslun notar til dæmis tæplega þrisvar sinnum meira verslunarhúsnæði en breskir kollegar. Og fjármagnið til að borga eitt hæsta leiguverð í Evrópu kemur beint úr vasa neytenda.
Íslensk verslun er mjög ósveigjanleg og hefur fá svör til að mæta nýrri samkeppni sem birtist á netinu. En í stað þess að skoða sjálfa sig og leita nýrra leiða til að lækka verð og mæta þessari samkeppni er farið í fjölmiðla og ríkið grátbeðið um að skera verslanir úr snörunni og „auka samkeppnishæfni þeirra“.