Lionel Messi verður í leikmannahópi Barcelona sem mætir Getafe í spænsku bikarkeppninni annað kvöld.
Argentínumaðurinn knái hefur ekki spilað með Börsungum síðan hann tognaði í lærvöðva í nóvember síðastliðnum.
Hann æfði af fullum krafti með félögum sínum í gær en Gerardo Martino, stjóri liðsins, gæti freistast til að hvíla Messi fyrir mikilvægan deildarleik gegn Atletico Madrid um helgina.
„Besti leikmaður heims mun hafa áhrif á okkar lið. Við verðum bara enn betri,“ sagði Martino í viðtali á heimasíðu Barcelona.
Martino hefur úr fjölda öflugra sóknarmanna að velja fyrir leikinn á morgun, svo sem Neymar, Alexis Sanchez og Pedro.
Messi í hóp á morgun
Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
