Karlalandsliðsþjálfararnir Heimir Hallgrímsson og Lars Lagerbäck munu á mánudaginn tilkynna landsliðshópinn fyrir vináttulandsleik á móti Svíum í Sameinuðu arabísku furstadæmunum þann 21. janúar næstkomandi.
Fyrstu fréttir af hópnum, sem verður aðeins skipaður leikmönnum á Norðurlöndum, láku þó út í dag þegar heimasíða Sarpsborg 08 sagði frá því að miðjumaðurinn Guðmundur Þórarinsson yrði í þessum hópi.
„Nú fær hann tækifæri til að sýna hvað hann getur með íslenska A-landsliðinu. "Gudi" verður í hópnum sem fer til Abu Dabh þann 18. janúar. Þar verður spilaður leikur við Svía 21. janúar en hann snýr síðan aftur til Sarpsborg," segir í fréttinni á heimasíðu Sarpsborg 08.
Guðmundur Þórarinsson hefur ekki leikið A-landsleik en á að baki 27 leiki fyrir yngri landslið Íslands. hann var með 3 mörk og 7 stoðsendingar í 30 leikjum (alla í byrjunarliði) á sínu fyrsta tímabili með norska úrvalsdeildarliðinu.
Gudi valinn í íslenska fótboltalandsliðið
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
