Golf

Stærstu nöfnin áfram á heimsmótinu í holukeppni

Kári Hinriksson skrifar
Rory McIlroy hafði betur gegn Boo Weekley í fyrstu umferð.
Rory McIlroy hafði betur gegn Boo Weekley í fyrstu umferð. Vísir/AP




Heimsmótið í holukeppni hófst í dag en alls fá 64 af bestu kylfingum heims boð í mótið. Þrátt fyrir að nokkur stór nöfn á borð við Tiger Woods, Adam Scott og Phil Michelson hafi ákveðið að vera ekki með að þessu sinni bauð fyrsti dagur mótsins upp á frábært golf og töluverða dramatík, enda ekki um hverja helgi sem allir efstu menn á heimslistanum, bæði frá evrópsku mótaröðinni og þeirri bandarísku, etja kappi í jafn skemmtilegu fyrirkomulagi og holukeppnin er.

Ljóst er að Dove Mountain völlurinn er að standa undir nafni sem einn skemmtilegasti holukeppnisvöllur heims en víðar brautir, eyðimörkin í Arizona og mjög hæðóttar flatir hans bjóða bestu kylfingum heims ýmsar áskoranir.



Sergio Garcia fór í bráðabana í fyrstu umferð.Vísir/AP
Leikið í fjórum riðlum

Alls er kylfingum skipt í fjóra riðla sem nefndir eru eftir fjórum goðsögnum í golfsögunni, þeim Bobby Jones, Ben Hogan, Gary Player og Sam Snead. 

Í Gary Player riðlinum lagði Matt Kuchar, sem á titil að verja síðan í fyrra, Bernd Wiseberger frá Austurríki 3/2 á meðan að fyrrum besti kylfingur heims, Luke Donald tapaði illa fyrir ítalska kylfingnum Matteo Manasero 5/4 sem mun mæta Jason Dufner í 32 manna úrslitum. Justin Rose, sem sigraði Opna bandaríska meistaramótið á síðasta ári, vann einnig sinn leik í fyrstu umferð þegar hann hafði betur gegn Scott Piercy 2/1.

Sam Snead riðillinn var einnig ansi áhugaverður en Graeme McDowell lagði hinn gríðarlega högglanga Gary Woodland á fyrstu holu í bráðabana eftir afar spennandi leik þar sem McDowell vann síðustu fjórar holurnar til að komast áfram. Sigurvegari Northern Trust Open mótsins um síðustu helgi, Bubba Watson, átti í töluverðum vandræðum með finnska kylfinginn Mikko Ilonen en endaði þó uppi sem sigurvegari, 2/1. Þá sigraði Svíinn Peter Hanson hinn vinsæla bandaríska kylfing Dustin Johnson nokkuð örugglega 4/3.

Svíinn Henrik Stenson er efsti kylfngurinn á heimslistanum sem tekur þátt í mótinu.Vísir/AP
Í Bobby Jones riðlinum unnu Bandaríkjamennirnir Brandt Snedeker og Webb Simpson sína leiki en þeir eru báðir miklir félagar og þurfa að mæta hvor öðrum í 32 manna úrslitum. Þá hafði Svíinn Henrik Stenson, sem átti magnað tímabil í fyrra og halaði inn yfir 20 milljón dollurum í verðlaunafé, betur gegn tælenska kylfingnum Kiradech Aphibarnrat í mjög spennandi leik 2/1. 

Í Ben Hogan riðlinum voru nokkrir áhugaverðir leikir en þar ber hæst að nefna að bandaríska ungstirnið, Rickie Fowler, sigraði Bretann litríka, Ian Poulter 2/1. Þá gerði Bandaríkjamaðurinn Harry English sér lítið fyrir og valtaði yfir Lee Westwood 5/3 á meðan að Sergio Garcia lagði Marc Leishman í æsispennandi bráðabana sem endaði ekki fyrr en á 22. holu. Frammistaða Rory McIlroy vakti þá einnig athygli en hann vann hinn högglanga Boo Weekley 3/2.

McIlroy bjartsýnn

Það er óhætt að segja að McIlroy sé líklegur til afreka um helgina en í viðtali við Golf Channel eftir hringinn sagðist Norður-Írinn vera í góðu formi. „Á þessum velli er mikið forskot að vera langur og beinn af teignum og ég hef verið það undanfarnar vikur. Vonandi heldur það áfram og þá veit maður aldrei hvað getur gerst um helgina, mér líður vel úti á vellinum í augnablikinu.“

Hér fyrir neðan má sjá alla leikina í 32 manna úrslitum en á morgun hefst útsending frá öðrum degi þessa æsispennandi móts klukkan 18:00 á Golfstöðinni.



Matt Kuchar á titil að verja.Vísir/AP
Í Bobby Jones riðlinum mætast:

Henrik Stenson og Luis Oosthuizen

Brandt Snedeker og Webb Simpson

Jason Day og Billy Horschel

George Coetzee og Patrick Reed

Í Ben Hogan riðlinum mætast:

Rory Mcilroy og Harry English

Charl Schwartzel og Jim Furyk

Sergio Garicia og Bill Haas

Rickie Fowler og Jimmy Walker

Í Sam Snead riðlinum mætast:

Richard Sterne og Hunter Mahan

Graeme McDowell og Hideki Matsuyama

Peter Hansons og Victor Dubuisson

Bubba Watson og Jonas Blixt

Í Gary Player riðlinum mætast:

Ernie Els og Justin Rose

Jason Dufner og Matteo Manassero

Matt Kuchar og Ryan Moore

Jordan Spieth og Thomas Björn



Öll úrslit má sjá hér
.

Jason Dufner er spáð góðu gengi.Vísir/AP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×