Snæbjörn, sem gegnir hlutverki hins appelsínugula polla með Pollapönki, segir að liðsmenn sveitarinnar haldi sig í búningunum út kvöldið.
„Mig grunar það nú, að við förum ekkert úr litunum í kvöld.“
Ekkert stressaðir
Pollapönk var með allra fyrstu flytjendum í ár og eyddu því stærstum hluta kvöldsins í hinu svokallaða græna herbergi að fylgjast með keppninni. Snæbjörn segir að ekkert hafi verið um stress í mannskapnum á meðan þessari löngu bið stóð.
„Við í rauninni byrjuðum bara strax að fagna vel unnu verki,“ segir hann. „Ef það var einhvern tímann eitthvað stress, fór það bara í undankeppninni. Við vorum bara að pæla í því að hafa gaman.“
Hann segir að Pollapönkarar hafi ekki einu sinni leitt hugann að því í hvaða sæti atriðið þeirra myndi lenda.
„Það var enginn að velta því fyrir sér,“ segir Snæbjörn. „Við mættum í morgun og erum bara búnir að vera hálf dansandi og syngjandi alveg síðan.“
Sigur fyrir boðskapinn
Aðspurður um siguratriðið, lagið Rise like a Phoenix í flutningi hins austurríska Conchita Wurst, segist hann sjálfur hafa haldið með Ungverjalandi en að almenn sátt ríki í liði Pollapönks um úrslitin.
„Ég held að allir hafi verið býsna ánægðir hvernig fór. Enda var þetta geysilega flott atriði.“
Snæbjörn tekur undir þá kenningu að sigur Wurst, sem er samkynhneigður klæðskiptingur, sé sigur fyrir þann boðskap sem Pollapönk vildi koma á framfæri.
„Klárlega, þetta er bara sama baráttan. Það er bara brilljant að sjá þegar heimurinn tekur skref í rétta átt. Auðvitað stuðlaði þetta að því sem við erum að tala um. Við viljum bara fagna fjölbreytileikanum.“
Hér fyrir neðan í fréttinni má sjá innlegg þeirra félaga á Facebook, þar sem þeir spjalla við sigurvegarann Wurst eftir keppni.
Verður stór-fokking-furðulegt
Hann segir að Evrópuævintýrinu sé nú lokið og að liðsmenn Pollapönks haldi heim strax á morgun.
„Nú bara springur sápukúlan og ég bara mæti í vinnuna klukkan níu á mánudagsmorgun, sem verður bara æðislegt.“
Verður það ekki skrýtið?
„Það verður alveg stór-fokking-furðulegt," segir Snæbjörn og hlær. „En maður vissi hvað þetta tæki langan tíma. Ég verð feginn að koma heim en að sama skapi er þetta búið að vera mjög gaman.“