Golf

Paul Casey tekur forystuna á Memorial

Paul Casey hefur verið frábær á Memorial mótinu til þessa.
Paul Casey hefur verið frábær á Memorial mótinu til þessa. Getty.
Englendingurinn Paul Casey leiðir á Memorial mótinu sem fram fer á Muirfield vellinum í Ohio en hann er á 12 höggum undir pari eftir 36 holur. Casey hefur leikið hringina tvo á 66 höggum eða sex undir pari og leiðir hann mótið með þremur höggum. Í öðru sæti á níu höggum undir pari er hinn högglangi Bubba Watson en Chris Kirk er í þriðja sæti á átta undir.

Það sem vakti mesta athygli í dag var þó frammistaða Rory McIlroy sem leiddi mótið með þremur höggum eftir að hafa leikið fyrsta hring á 63 höggum eða níu undir pari. Hann fór greinilega vitlaust fram úr í morgun en hann lék annan hring á 78 höggum eða sex yfir pari, heilum 15 höggum frá skorinu í gær. McIlroy er jafn í 24. sæti á þremur höggum undir pari en áhugavert verður að sjá í hvernig stuði hann mætir til leiks á morgun.

Jordan Spieth er einnig á þremur höggum undir pari eftir 36 holur en Phil Mickelson er á tveimur höggum undir eftir að hafa leikið á 70 höggum eða tveimur undir í dag. Þá er Adam Scott í fínum málum í tíunda sæti á fimm höggum undir pari og gæti með góðum hring á morgun blandað sér í baráttu efstu manna en þriðji hringur verður í beinni útsendingu á Golfstöðinni frá klukkan 16:30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×