Sport

Sindri Hrafn komst örugglega í úrslit á HM

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Sindri Hrafn Guðmundsson.
Sindri Hrafn Guðmundsson. vísir/daníel
Sindri Hrafn Guðmundsson, 19 ára spjótkastari úr Breiðabliki, gæti hafa tryggt sér sæti í úrslitum á HM ungmenna í Eugene í Bandaríkjunum.

Sindri var í fyrri kasthópi í undanúrslitunum í kvöld og fór illa af stað, en hann kastaði 60,90 metra í fyrstu tilraun og 60,21 metra í annarri tilraun.

Þarna var hann langt frá sínu besta, en þessi efnilegi íþróttamaður grýtti spjótinu heila 77,28 metra metra á Meistaramóti Íslands í frjálsíþróttum á dögunum.

Sindri gerði mun betri í þriðju og síðustu tilraun sinni í undanúrslitunum og þeytti spjótinu þá 69,99 metra sem dugði honum til fjórða sætis í hans riðli.

Til að komast beint í úrslit þarf að kasta 72 metra slétta, en aldrei fara færri en tólf strákar í úrslitin. Aðeins einn piltur, Andrian Mardare frá Moldavíu kastaði svo langt í fyrri hópnum eða 74,46 metra.

Seinni riðillinn fer af stað klukkan 21.10 að íslenskum tíma, og þurfa þar ellefu að kasta yfir 72 metra, eða níu strákar að ná betri árangri en Sindri svo hann fari ekki í úrslitin.

Uppfært 21.37: Sindri Hrafn komst á endanum örugglega í úrslitin. Lengsta kastið í seinni riðlinum var 69,67 metrar þannig Blikinn fer í úrslit með fjórða lengsta kastið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×