Barcelona vann fyrsta deildarleik sinn undir stjórn Luis Enrique sem tók við liðinu af Gerardo Martino fyrr í sumar.
Elche var ekki mikil fyrirstaða fyrir Börsunga sem tefldu fram nokkrum nýjum leikmönnum; markverðinum Claudio Bravo, miðverðinum Jeremy Mathieu og miðjumanninum Ivan Rakitic, sem voru allir keyptir til liðsins í sumar, auk unglinganna Munir og Rafinha.
Það var samt kunnuglegt andlit sem kom Barcelona yfir. Lionel Messi skoraði fyrsta mark leiksins á 42. mínútu, en Börsungar höfðu áður átt tvö skot í tréverkið.
Tveimur mínútum síðar var Javier Mascherano rekinnn út af fyrir að brjóta á Garry Rodrigues, framherja Elche.
Það kom þó ekki að sök því Munir bætti við marki á upphafsmínútu seinni hálfleiks. Og á 63. mínútu bætti Messi sínu öðru marki við og gulltryggði sigurinn. Lokatölur 3-0, Barcelona í vil, en liðið hefur nú skorað í 53 heimaleikjum í röð.
