Innlent

Snorri segir þingmann hafa hótað sér

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Þórunn tjáði Snorra að henni hafi þótt hann ganga of langt þegar hann sagði sataníska orku vera í kringum Framsókn.
Þórunn tjáði Snorra að henni hafi þótt hann ganga of langt þegar hann sagði sataníska orku vera í kringum Framsókn. Vísir / Vilhelm / Ernir
Snorri Ásmundsson listamaður segir að Þórunn Egilsdóttir, þingkona Framsóknarflokksins, hafi haft í óbeinum hótunum við sig á listasýningu í gær. Þórunn sagðist vona að ummæli Snorra um sataníska orku í kringum Framsóknarflokkinn myndu ekki hafa áhrif á hann í framtíðinni. Myndband þar sem samtalið heyrist, þó ógreinilega, er birt á vef Séð og Heyrt.

Í samtali við Vísi segist Snorri vel hafa skynjað hótunina. „Já þetta var hótun. Ég er enginn bjáni, ég þekki alveg þegar menn eru að hóta þó að þeir leiki sér með orðin,“ segir hann. „Þetta er bara yfirgangur og frekja í þessu fólki.“ Þórunn tekur þó fyrir að hafa hótað Snorra.

Snorri segist hafa átt í orðaskiptum við Þórunni áður en meint hótun kom fram. „Hún kemur þarna og kynnir sig þegar ég er að opna þessa sýningu og segist vera þingkona framsóknarflokksins. Hún segist vera verulega ósátt við það sem ég sagði við Fréttablaðið um framsókn og að þetta væri ekki alveg rétt. Ég þvertók fyrir það og sagði að þetta væri algjörlega rétt hjá mér,“ segir hann um aðdragandann.

Þórunn segir hinsvegar að hún hafi einungis vilja ræða við Snorra og því farið og hitt hann. „Ég óskaði honum bara velfarnaðar í hans störfum. Mín skoðun er sú að hann hafi gengið of langt með sínum orðum,“ segir hún. Þórunn segist hafa viljað segja honum það í eigin persónu en ekki fara að tjá sig um ummælin í fjölmiðlum.

Hún neitar því að hótun hafi falist í orðum sínum „Nei. Ég óskaði honum bara velfarnaðar,“ segir hún og bætir við: „Ég var hreint ekki að hóta þessum manni.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×