Heimir Hallgrímsson og Lars Lagerbäck, þjálfarar íslenska landsliðsins í fótbolta, kynntu í dag landsliðshóp sinn fyrir vináttuleik á móti Belgum og leik við Tékkland í undankeppni EM 2016.
Íslenska liðið hefur unnið þrjá fyrstu leiki sína með markatölunni 8-0. Liðið hefur aldrei byrjað svona vel.
„Markmið okkar var að ná 1. eða 2. sætinu í riðlinum. Holland er enn sigurstranglegast að mínu mati. En markmið okkar standa enn," sagði Heimir Hallgrímsson á blaðamannafundi í dag.
Tékkar eru líka með fullt hús eftir þrjá sigra í þremur leikjum en íslenska liðið er með betri markatölu.
„Þetta er úrslitaleikur við Tékka. Hvor okkar ætlar að taka forystuhlutverk í riðlinum. Það væri sterkt að ná í þrjú stig þar.“
Fyrir leikinn mætir íslenska liðið Belgum í vináttuleik. „Við höfum fengið nokkrar spurningar um af hverju við tökum nú æfingaleik gegn Belgíu,“ segir Heimir og bætir við: „Í fyrsta lagi er þetta virkilega góður æfingaleikur og leikmenn sem lítið hafa fengið að spila fá nú tækifæri," segir Heimir.
„Við verðum líka í fimm daga í Belgíu við mjög góðar aðstæður. Það er að mörgu leyti betri undirbúningur fyrir okkur," segir Heimir.

