Innlent

Vill veita rýmri heimildir til að nota fánann

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
„Ég er að leggja til að fáninn megi þá vera uppi til dæmis á sumrin hjá okkur, yfir bjartasta tímann,“ útskýrir Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingkona Framsóknarflokksins. Hún hefur lagt fram frumvarp á Alþingi um breytingar á fánalögum til að rýmka notkunarheimildir. Silja Dögg ræddi málið í þættinum Bítið á Bylgjunni í morgun.

Strangar reglur gilda um notkun fánans sem meðal annars taka til hvenær má flagga honum. „Það þarf að taka hann niður fyrir miðnætti og það kannski á ekkert vel við hjá okkur þegar það er bjart allan sólarhringinn,“ segir Silja Dögg.

Tók hún dæmi um ferðaþjónustuaðila og sumarhúsaeigendur. „Þá nennir það kannski einfaldlega ekki að draga hann að húni,“ segir hún. „Tilgangurinn með þessu frumvarpi er semsagt að gera þjóðfánann sýnilegri, að við notum hann meira.“

Silja Dögg segist vilja nota fánann meira. „Mér finnst við ættum að nota fánann meira og hafa hann sýnilegri. Ég fæ alltaf pínu svona gæsahúð við íþróttaviðburði og annað við fánahyllinguna. Mér finnst þetta mjög glæsilegt,“ segir hún.

Frumvarpið var á dagskrá Alþingis í gær og segir Silja Dögg að málið hafi verið til umræðu, sem er ekki sjálfgefið þó að það sé á dagskrá. „Það voru fáir í salnum og það var enginn sem andmælti eða var með vesen þarna,“ sagði hún aðspurð hvernig frumvarpinu hafi verið tekið.

Silja Dögg veit ekki af hverju reglurnar eru með þessum hætti en hún segir að sambærilegar reglur séu til á hinum Norðurlöndunum. „Grunnurinn í þessum fánalögum er sá að fánanum sé sýnd virðing. Hann má ekki vera slitinn, upplitaður eða illa farinn,“ sagði hún. „Það er einn punktur í þessu, það er náttúrulega vindasamt og allavega veður, það þarf kannski að tryggja það að þetta fari vel.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×