Ríflega 700 íslenskir stuðningsmenn fylgdu landsliðinu til Plzen þar sem Ísland tapaði því miður fyrsta leik sínum í undankeppni EM 2016 gegn Tékklandi, 2-1.
Tólfan var í gríðarlegu stuði fyrir leikinn og hertók stóran bruggbar í Plzen fyrir leikinn þar sem barið var á trommur og söngvar sungnir í marga klukkutíma fyrir leik.
Á Youtube-síðu einni sem virðist vera í eigu tékknesks íþróttaáhugamanns eru nokkur myndbönd af tólfunni bæði á götum Plzen að syngja og frá bruggbarnum þar sem Lofsöngur var sunginn og Ég er kominn heim.
„Þetta eru magnaðir stuðningsmenn og frábært fólk,“ skrifar eigandi Youtube-síðunnar við eitt myndbandið, en hann virðist nokkuð hrifinn af íslensku stuðningsmönnunum.
Í myndböndunum hér að neðan má sjá hvernig stemningin var hjá Tólfunni fyrir leikinn.