Thomas Vermaelen verður frá í fimm mánuði eftir að Barcelona staðfesti að varnarmaðurinn þurfi að fara í aðgerð vegna meiðsla á lærisvöðva.
Vermaelen meiddist í leik með belgíska landsliðinu gegn Rússlandi á HM í júní en hann gekk í raðir Barcelona frá Arsenal í byrjun ágúst og hefur ekkert spilað með spænska stórveldinu síðan að tímabilið hófst.
Belginn hefur margoft glímt við meiðsli á ferlinum og kom við sögu í aðeins 21 leik með Arsenal á síðustu leiktíð vegna ýmissa meiðsla. Hann gæti spilað sinn fyrsta leik með Barcelona í apríl á næsta ári.
