Fótbolti

Þessir aumingjar eru glæpamenn og morðingjar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Lögreglan hafði í nógu að snúast.
Lögreglan hafði í nógu að snúast. vísir/getty
Miguel Ángel Gil Marín, framkvæmdastjóri Spánarmeistara Atlético Madrid, segir bullurnar sem urðu valdur að dauða eins stuðningsmanns Deportivo í dag vera glæpamenn og morðingja.

Spænska lögreglan handtók 24 menn í morgun þegar fjórar svokallaðar „ultras“-stuðningsmannasveitir Atlético og Deportivo slógust í Madrid fyrir leikinn. Haldið er að um 100 manns hafi tekið þátt í slagsmálunum og voru ellefu fluttir á sjúkrahús.

Einn þeirra, maður á fertugsaldri, var laminn í höfuðið og svo kastað í nærliggjandi á. Endurlífgunartilraunir á honum gengu ekki og var hann úrskurðaður látinn skömmu síðar.

„Í hópi 4.000 manna finnurðu alltaf einhverja aumingja,“ sagði Miguel Ángel Gil Marín, framkvæmdastjóri Atlético, við blaðamenn.

„Þessir glæpamenn og morðingjar fela sig í stórum hópum fólks. Þeir nýta hvert tækifæri til að láta sjá sig. Þessir menn eru með graut í hausnum.“

„Atlético Madrid er búið að banna þrettán manns fyrir mun vægari atvik. Þeir sem tóku þátt í þessum slágsmálum mun aldrei koma á Vicente Caldéron-leikvanginn aftur. Þeir ættu í raun að fara í fangelsi,“ sagði framkvæmdastjórinn.

Leikurinn fór fram þrátt fyrir dauðsfallið og höfðu meistararnir sigur, 2-0.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×