Slæmar fréttir fyrir spænska framherjann Imanol Agirretxe gætu verið góðar fréttir fyrir íslenska framherjann Alfreð Finnbogason í baráttunni um sæti í fremstu línu spænska liðsins Real Sociedad.
Imanol Agirretxe hefur haldið Alfreð út úr byrjunarliðinu síðustu vikurnar en Agirretxe verður frá keppni í nokkrar vikur eftir að hafa tognað aftan í læri á föstudagskvöldið.
Agirretxe fór í myndatöku og á heimasíðu félagsins segir frá því að hann sé á leiðinni í endurhæfingu og spili ekkert á næstunni.
Alfreð kom inná fyrir Imanol Agirretxe strax á áttundu mínútu og kláraði leikinn þar sem Real Sociedad vann 3-0 sigur á Elche.
David Moyes sendi Alfreð inn í leikinn og fagnaði í kjölfarið sínum fyrsta sigri sem þjálfari spænska liðsins.
Framundan eru síðan tveir leikir á næstu sex dögum, fyrst bikarleikur á móti Real Oviedo á fimmtudaginn og svo útileikur á móti Villarreal á sunnudagskvöldið.
Það er til mikils að vinna hjá Alfreð að standa sig vel í þessum tveimur leikjum því sunnudaginn 14.desember fær Real Sociedad nágrannanna úr Baskalandi, Athletic Club Bilbao, í heimsókn á Estadio Municipal de Anoeta. Það vill enginn missa af þeim nágrannaslag.

