Leikkonan Katherine McKee, fyrrverandi kærasta Sammy Davis Jr. heitins, segir í viðtali við New York Daily News að grínistinn Bill Cosby hafi nauðgað sér á áttunda áratug síðustu aldar.
„Þá var ég eiginkona Sammys þegar hann var á ferðalögum. Hann var í opnu hjónabandi og við vorum elskhugar. Þannig var það,“ segir Katherine og heldur því fram að Cosby hafi nauðgað sér þegar hún var á ferðalagi með Sammy.
„Hann var vinur. Hann vissi að ég var stelpan hans Sammys,“ segir hún og bætir við að atvikið hafi átt sér stað á hótelherbergi grínistans.
„Hann sneri mér í hring, kippti nærbuxunum mínum niður og bara tók mig með valdi. Við stóðum enn í dyragættinni þegar hann réðst á mig. Þetta gerðist svo hratt, kom svo á óvart og var svo ótrúlegt.“
Hún segist aldrei hafa sagt Sammy frá árásinni.
„Ég vildi ekki planta þeirri hugsun í höfuð Sammys. Ég var reið við sjálfa mig fyrir að stoppa hann ekki og reyna að sleppa.“
Katherine er ein af mörgum konum sem hafa sakað Cosby um kynferðisbrot síðustu vikur en grínarinn heldur fram sakleysi sínu.