Fótbolti

Kroos þrefaldur heimsmeistari á innan við ári

Anton Ingi Leifsson skrifar
Vísir/Getty
Toni Kroos, miðjumaður Real Madrid, afrekaði það í gær að vinna sinn þriðja heimsmeistaratitil á innan við ári. Kroos er fyrsti leikmaðurinn til að vinna heimsmeistarakeppni félagsliða með tveimur liðum.

Þann 21. desember 2013 varð Kroos heimsmeistari félagsliða með fyrrverandi félagi sínu Bayern Munchen. Bayern vann þá Raja Casablanca frá Marokkó í úrslitum og spilaði Kroos þar allan leikinn.

Kroos var svo aftur á ferðinni í sumar þegar hann varð heimsmeistari landsliða þegar Þjóðverjar unnu, eins og frægt er, Argentínu í úrslitaleik HM sem haldið var í Brasilíu.

Til að fullkoma árið urðu Kroos og félagar í Real Madrid svo heimsmeistarar félagsliða í gær þegar þeir unnu San Lorenzo 2-0. Algjörlega magnað ár hjá kappanum.

Kroos er einungis 24 ára gamall, en hann lék 130 leiki fyrir Bayern áður en hann skrifaði undir sex ára samning við Real Madrid í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×