Íslenska landsliðið mun spila þrjá vináttulandsleiki í vetur og vor en KSÍ tilkynnti nú síðast í gær um vináttulandsleik við Austurríkismenn í lok maí. Íslenska liðið mætir Svíum í Abú Dabí í janúar og Wales 5. mars.
Það verður dregið í riðla í undankeppni EM 2016 þann 23. febrúar næstkomandi og svo getur farið að Ísland lendi í riðli með öllum þessum þremur þjóðum.
Ísland er í fimmta styrkleikaflokki af sex. Svíar eru í öðrum styrkleikaflokki, Austurríkismenn eru í þriðja styrkleikaflokki og Wales er í þeim fjórða eða einum fyrir ofan Ísland.
Tvö efstu liðin í riðlunum níu fara beint í úrslitakeppnina ásamt liðinu sem er með bestan árangur í 3. sæti. Hin átta liðin sem hafna í þriðja sæti sinna riðla fara í umspil um fjögur laus sæti á Evrópumótið í Frakklandi sumarið 2016.

