Hann skýrði síðan frá því að í næstu viku yrði þing kallað saman í von um að brátt tækist honum að mynda nýja ríkisstjórn.
Bandalag stjórnmálaflokka sjía-múslima, sem hann veitir forystu, fékk flest þingsæti í kosningum 30. apríl síðastliðinn, en þó aðeins 92 sæti af 328 þannig að hann þarf stuðning frá öðrum flokkum til að hafa þingmeirihluta.
Hann hefur sætt gagnrýni fyrir að hafa undanfarið kjörtímabil gert hagsmunum sjía-múslima hærra undir höfði en annarra hópa í landinu.
Sumir helstu leiðtogar sjía-múslima í Írak hafa tekið undir þessa gagnrýni á al Maliki og skora á hann að hafa fulltrúa allra helstu stjórnmálaafla landsins með í nýju ríkisstjórninni.
Þar á meðal er klerkurinn Muktada al Sadr, sem í gær lét í sér heyra og vill að mynduð verði ný stjórn með nýjum andlitum frá öllum hagsmunahópum.
Hann hét því jafnframt að kippa fótunum undan ISIS-samtökunum, sem hafa náð stórum hluta landsins á sitt vald þótt ekki hafi þau komist inn á svæði sjía-múslima í suðaustanverðu Írak eða svæði Kúrda í norðaustanverðu landinu.

Áður hafði Ali al Sistani, æðsti trúarleiðtogi sjía-múslima í Írak, hvatt til þess að mynduð yrði ný stjórn allra hagsmunahópa.
Al Maliki hefur ekki í hyggju að segja af sér og segir það ganga gegn lýðræði og stjórnarskrá landsins. Hann hefur samkvæmt stjórnarskrá landsins allt sumarið til þess að reyna að mynda meirihlutastjórn.
Ráðamenn í Bandaríkjunum, Bretlandi og fleiri löndum segja hins vegar brýnt að ný stjórn allra hagsmunahópa verði mynduð sem fyrst svo hún geti staðið saman gegn hættunni af hernaði ISIS-samtakanna.
Fjöldi fólks hefur flúið þorp og borgir á þeim svæðum sem ISIS-menn hafa náð á sitt vald og streymir til Kúrdahéraðanna í norðausturhluta Íraks.