Skoðun

Blöndum okkur!

Líf Magneudóttir skrifar
Fjölmenningarþing Reykjavíkur verður haldið á morgun, 15. nóvember, í þriðja sinn í Ráðhúsi Reykjavíkur. Fjörugra og skemmtilegra þing er vart hægt að finna enda á Ráðhúsið eftir að fyllast af fólki frá hinum ýmsu löndum sem brennur fyrir samfélagi sínu og stöðu innflytjenda á Íslandi.

Á þinginu verður hópavinna á tíu tungumálum um hin ýmsu mál sem snerta innflytjendur (og alla aðra) eins og t.d. menntamál, móttöku nýrra Reykvíkinga, húsnæðismál, réttindabaráttu, gagnkvæma aðlögun og fleira sem hjartanu stendur næst. Sá vettvangur sem Fjölmenningarþingið skapar er kjörið tækifæri til að hafa áhrif, styrkja tengslanetið, kynnast nýju fólki, fá hugmyndir og deila hugmyndum til að gera borgina og stöðu innflytjenda betri á allan hátt.

Þetta er líka vettvangur til að koma með ábendingar um hvernig megi gera betur í þjónustu við innflytjendur og leysa ýmsar aðgangshindranir sem þeir standa frammi fyrir. Á Fjölmenningarþinginu verður líka kosið í fjölmenningarráð sem er ráðgefandi fyrir mannréttindaráð og stofnanir borgarinnar í málefnum innflytjenda. Þetta verður því fjölbreytt og fræðandi þing þar sem af nægu verður að taka.

Heimurinn er hér

Heimurinn verður sífellt minni með nýrri tækni og greiðari samgöngum. Samfélög taka breytingum með tilkomu nýs fólks og fólksflutningum en líka vonandi af því að við tölum saman, hlustum og lærum hvert af öðru. Það er mikilvægt að taka fólki sem hingað flyst með opnum huga og skilningi því ávinningurinn af margmenningu og fjölbreytileika er ótvíræður. Við skulum því leggja okkur fram við að viðhalda og styrkja fjölbreytileika mannlífsins og búa til borg þar sem allir geta notið sín.

Fjölmenningarþingið er einn angi af því viðhorfi sem á að vera ríkjandi, að innflytjendur og fjölmenning séu hluti af Reykjavík og samfélaginu öllu. Við skulum því blanda geði við innflytjendur í borginni og á Fjölmenningarþinginu og blanda okkur almennt í málefni líðandi stundar. Sjáumst í Ráðhúsinu á morgun klukkan tíu.




Skoðun

Sjá meira


×