Fernando Torres sneri aftur í lið Atlético Madrid í kvöld eftir átta ára fjarveru þegar Spánarmeistararnir lögðu Real Madrid, 2-0, í fyrri leik liðanna í 16 liða úrslitum spænska Konungsbikarsins.
Þessi dáði sonur hvíta og rauða hluta Madrídar er hjá sínu uppeldifélagi á láni frá AC Milan, en hann hefur ekki spilað fyrir Atlético síðan hann yfirgaf liðið fyrir Liverpool sumarið 2007.
Torres spilaði 59 mínútur í leiknum og kom ekki skoti á markið, en það kom ekki að sök þar sem Atlético vann frábæran sigur.
Raúl García fékk vítaspyrnu þegar Sergio Ramos braut á honum, en García fór sjálfur á punktinn og skoraði á 58. mínútu. Þá var Torres tekinn af velli um leið.
Varnarmaðurinn efnilegi José Giménez jók forystuna á 76. mínútu leiksins, en þessi 19 ára gamli Úrúgvæi stangaði boltann í netið eftir hornspyrnu.
Eftir að vinna 23 leiki í röð er Real Madrid nú búið að tapa tveimur í röð, en það þarf að vinna upp þessa tveggja marka forystu Atlético í seinni leiknum á Bernabéu eftir viku.
