Þetta skrifar Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar- og flugvallarvina, á Facebook-síðu sína í dag og vísar þar með í fréttir sem birst hafa á Vísi um reglur Reykjavíkurborgar í grunnskólum. Reglurnar kveða á um að ekki megi gefa börnum í grunnskóla gjafir á skólatíma, séu á gjöfunum merkingar.
Sveinbjörg segir reglurnar vera komnar út í vitleysu og gagnrýnir fulltrúa meirihlutans og segir þá komna „í andstöðu við sjálfan sig, nú sem áður“.
Fréttirnar vöktu töluverða athygli og ekki allir á einu sáttir við reglurnar. Hildur Sverrisdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, er þar á meðal og telur að þær þurfi að endurskoða.
„Það hlýtur að vera hægt að finna betri nálgun þar sem meðalhófs er gætt svo að ekki sé gengið á rétt barna að þessu leyti án þess að tekið sé fyrir að þeim séu gefnir mikilvægir hlutir sem koma mörgum þeirra afskaplega vel, til að mynda tannburstar, endurskinsvesti og hjálmar. Það verður að fá að skipta máli í þessari umræðu að það er í svona samstarfi þar sem hlaupið er undir bagga með foreldrum, og í einhverjum tilvikum er um að ræða að börn eignast hluti sem foreldrar þeirra eiga í erfiðleikum með að skaffa þeim,“ skrifar Hildur á Facebook.
„Börn eru ekki sjálfstæðir neytendur, hafa ekki nægan þroska til að meta hvað þau hafa þörf fyrir og hvað þeim er hollt eða til að sjá í gegnum auglýsingar og loks hafa þau ekki fjárráð til að bregðast við auglýsingum eða annarri markaðssókn sem beinist að þeim.“
Tannlæknafélag Íslands fékk á síðasta ári heimild til þess að afhenda 3.500 börnum gjafapoka með ýmsum vörum tengdum tannheilsu eftir umfjöllun fjölmiðla. Ákveðið var að leyfa gjafirnar þar sem um var að ræða verkefni sem stuðlaði að bættri tannheilsu barna.
Sjá einnig: Vilja ekki að börnin séu sett í erfiðar aðstæður
Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, segir í samtali við Fréttablaðið að reglurnar séu skýrar og að þær væru til þess fallnar að vernda börn fyrir markaðssetningu á skólatíma.
„Auðvitað er þetta erfitt því þetta er gert í góðum tilgangi. Auðvitað erum við sammála þessu á lýðheilsuforsendum. Reglurnar miða að því að það sé ekki verið að setja börn í þær aðstæður að fyrirtæki sé að gefa þeim merktar gjafir á skólatíma,“ sagði Skúli.