Barcelona er komið á toppinn í spænsku 1. deildinni, það mætir Athletic Bilbao í úrslitaleik spænska Konungsbikarsins 30. maí og er í góðri stöðu gegn Manchester City í í 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar.
„Við erum með lið sem getur unnið þrennuna,“ segir Neymar sem hefur spilað mjög vel á leiktíðinni og skorað 26 mörk í 32 leikjum í öllum keppnum.
Einn af stærstu fótboltaleikjum hvers árs, El Clásico, fer fram um aðra helgi þegar Real Madrid heimsækir Barcelona á Nývang.
Vinni bæði lið sína leiki um næstu helgi mun Clásico vera mjög mikilvægur, en þá getur Barcelona annaðhvort náð fjögurra stiga forystu á toppnum eða Real endurheimt toppsætið.
Bæði lið eru með lygilega góða og dýra þriggja manna framlínu. Hjá Barcelona eru það Messi, Suárez og Neymar en Madrídingar bjóða upp á BBC-þríeykið; Bale, Benzema og Cristiano Ronaldo.
Aðspurður hvort Barca-þríeykið sé betra svarar Neymar: „Það finnst mér. Við einbeitum okkur bara að okkur sjálfum. Við hugsum ekki um andstæðinginn.“
„Messi er sá besti í heiminum og Suárez er frábær markaskorari. Það er heiður fyrir mig að spila með þeim. Þetta eru tveir ótrúlega góðir leikmenn,“ segir Neymar.
