Gerard Pique, varnarmaður Barcelona, segir að liðið eigi helmingslíkur á að leggja Real Madrid í leik þessara spænsku stórvelda í kvöld.
„Staðan í deildinni og gengi liðanna skiptir engu í El Clasico,“ sagði Pique.
„Liðin eiga jafna möguleika á að vinna leikinn. Þeir eru með Cristiano Ronaldo og Gareth Bale sem eru mjög kraftmiklir, hraðir og hættulegir í stöðunni maður gegn manni.“
Barcelona náði toppsætinu af Real Madrid um þarsíðustu helgi og Börsungar geta náð fjögurra stiga forskoti á erkifjendurna með sigri á Nývangi í kvöld. Barcelona hefur verið á miklu skriði eftir áramót og unnið níu af síðustu tíu deildarleikjum sínum.
„Við erum á góðu róli og með sigri í El Clasico stígum við stórt skref í átt að meistaratitlinum. Það eru 10 leikir eftir og það er stutt á milli okkar,“ sagði Pique ennfremur.
Real Madrid hefur unnið tvo leiki í röð gegn Barcelona og vinni liðið í kvöld verður það í fyrsta sinn síðan 1978 sem Real vinnur þrjá leiki gegn Börsungum í röð.
Leikur Barcelona og Real Madrid hefst klukkan 20:00 og verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.
