Stjórn MORFÍs, mælsku- og rökræðukeppni íslenskra framhaldsskóla, hefur sent nemendaráði FSu og skólastjórn skólans formlega kvörtun vegna framkomu ræðuliðs skólans í keppni gærkvöldsins. Í fyrri umferð fór einn liðsmaður FSu með hlutverk Steingríms Njálssonar, dæmds kynferðisafbrotamanns, og segist stjórnin í tilkynningu á Facebook-síðu sinni fordæma orðræðu liðsins.
„Dæmin sem þau tóku í ræðum sínum voru óviðeigandi á allan hátt,“ segir í tilkynningunni. „Við gerum ekki grín að barnaníði, nauðgunum, morðum og eyðum ekki púðri í að ræða um nafngreinda afbrotamenn.“
Sjá einnig: Kvenfyrirlitning og klámkjaftur á ekki heima í Morfís
Í tilkynningunni er einnig gagnrýnt að liðsmenn FSu hafi ekki tekið mark á athugasemdum oddadómara í seinni umferð en hann á að hafa beðið ræðumenn sérstaklega um að gæta orða sinna í kjölfar leikþátts meðmælanda FSu.
Fundarstjóri var rétt í þessu að biðja ræðumenn um að gæta orða sinna.
— MORFÍs tweetar (@MorfisTweetar) March 19, 2015
„Við lýstum því yfir í upphafi keppnisárs að svona framkoma væri ekki liðin og við það stöndum við,“ segir í tilkynningu stjórnar MORFÍs. „Áfram heilbrigð orðræða, virðing og málefnaleg samskipti.“
Sjá einnig: Saka ræðulið um kvenfyrirlitningu og áreitni
Halldóra Íris Magnúsdóttir, formaður Nemendafélags FSu, segir nemendur skólans almennt sammála um það að gengið hafi verið of langt í keppninni í gær.
„Þetta er auðvitað ekki í lagi, þessi orð sem þau létu falla“ segir Halldóra. „Það verður tekið á þessu og afsökunarbeiðni mun koma frá liðinu.“
Umræðuefni keppninnar var Rök umfram tilfinningar og mælti FSu með en Kvennaskólinn á móti. Kvennaskólinn vann með 526 stigum.
Keppnina í heild sinni má sjá hér fyrir neðan en ræðan sem um ræðir hefst þegar 39 mínútur eru liðnar.