Fjórir aðrir hafa hins vegar verið felldir af öðrum aðilum eins og uppreisnarhópum í Sýrlandi. Fregnir bárust hins vegar í dag um að leiðtogi ISIS hafi særst alvarlega í loftárás í mars.
Sjá einnig: Al-Baghdadi „alvarlega særður eftir loftárás“
Hafa ýkt árangur sinn
Um miðjan mars birtist á vef Bloomberg grein þar sem sagt var frá því að leiðtogar Bandaríkjanna hafi ýkt mannfall meðal vígamanna ISIS og leiðtoga þeirra. Þeirra á meðal var John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Á öryggisráðstefnu í Þýskalandi í febrúar sagði hann að um helmingur leiðtoga ISIS hefði verið felldur í loftárásum.
Hundruð og jafnvel þúsundir vígamanna hafa fallið í loftárásunum, en einungis þrír af leiðtogum ISIS eins og áður hefur komið fram. Stærstu ákvarðanir íslamska ríkisins eru teknar í tveimur ráðum sem heita Shura- og Shariaráð. Meðlimir þess eru flestir enn við hestaheilsu. Þrátt fyrir það hafa ríkis- og svæðisstjórar verið felldir, bæði í loftárásum og í landhernaði, en nýir menn hafa gengið fljótlega inn í þau störf.
Aðilar sem Bloomberg ræddi við og fylgjast með samskiptum ISIS, bæði almennum og á samfélagsmiðlum, segja að meðlimir samtakanna segi alltaf frá því að leiðtogar séu felldir. Þá með líkræðum eða þeir séu mærðir á samfélagsmiðlum.

Meðal þeirra sjö sem hafa fallið eru Samir Abd Muhammad al-Khlifawi, sem veginn var af uppreisnarmönnum í Sýrlandi í janúar í fyrra. Uppreisnarmenn eru sagðir hafa fundið skjöl í húsi Khlifawi þar sem hann hafði teiknað upp Íslamska ríkið.
Skjölin eru talin sýna fram á að hann var heilinn á bakvið Íslamska ríkið og skipulagði hann yfirtöku þess á stórum svæðum í Sýrlandi.
Khlifawi var áður foringi í leyniþjónustu Saddam Hussein í Írak. Hann skipulagði uppbyggingu kalífadæmisins með aðferðum sem hann lærði í þjónustu einræðisherrans. Khlifawi skipaði einnig Abu Bakr al-Baghdadi sem leiðtoga kalífadæmisins.
Á vef Spiegel kemur fram Khlifawi hafi ásamt hópi manna úr leyniþjónustu Saddam Hussein, valið Baghdadi til að gefa Íslamska ríkinu trúarlegt andlit. Markmið hans hafi þó verið að ná fótfestu í Sýrlandi og gera innrás í Írak.