Innlent

Forysta SFS sammála þjóðinni um makrílfrumvarp

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Kolbeinn Árnason framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi gagnrýndi ríkisstjórnina fyrir samráðsleysi vegna makrílfrumvarpsins í beinni á Stöð 2 í kvöld. 

„Ég held að þetta frumvarp eins og það er núna sé alls ekki til þess fallið að skapa sátt um sjávarútveginn í samfélaginu,“ sagði Kolbeinn. Hann sagði að ákvæði í makrílfrumvarpinu um ráðstöfun makrílkvóta til lengur en eins árs sé ekki frá SFS komin og frumvarpið hafi verið unnið án nokkurs samráðs við samtökin. 

Rúmlega tuttugu og níu þúsund manns hafa nú skrifað undir áskorun til forseta um að vísa til þjóðaratkvæðagreiðslu hverjum þeim lögum sem Alþingi samþykkir þar sem fiskveiðiauðlindum er ráðstafað til lengri tíma en eins árs. 

Sú grundvallarbreyting sem frumvarpið felur í sér við ráðstöfun fiskveiðiauðlindarinnar, til lengri tíma en eins árs í senn, er mjög umdeild í samfélaginu eins og fulltrúar fréttastofunnar urðu áskynja í dag þegar rætt var fólk á förnum vegi um frumvarpið. 

Sjá má afstöðu viðmælenda fréttastofu úr röðum almennings og viðtal við Kolbein með því að smella á meðfylgjandi myndskeið hér fyrir ofan.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×