Handbolti

Lovísa: Hugsaði bara um að skora

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Lovísa grét gleðitárum í leikslok.
Lovísa grét gleðitárum í leikslok. vísir/valli
Lovísa Thompson fagnaði Íslandsmeistaratitlinum í kvöld með páskaeggi sem hún hafði geymt frá því um páskana. Hin fimmtán ára Lovísa var hetja Gróttu en hún skoraði sigurmarkið gegn Stjörnunni í kvöld og tryggði Gróttu þar með Íslandsmeistaratitilinn.

„Ég ákvað að geyma páskaeggið þar til að úrslitakeppnin var búin,“ sagði Lovísa sem hélt þétt um mölbrotið páskaeggið sitt. Það var þó enn í umbúðum sínum.

Lovísa skoraði sigurmark Gróttu þegar örfáar sekúndur voru eftir en í leikhléi skömmu áður ákvað Kári Garðarsson, þjálfari Gróttu, að stilla upp í kerfi fyrir hana.

„Ég veit ekki hvað ég fór að hugsa þá. Annað en að ég ætlaði bara að skora. Það var það eina sem ég hugsaði um.“

Grótta náði þó ekki að stilla upp í kerfið sem Kári teiknaði upp og var næstum búið að fá dæmt á sig tvígrip.

„Við héldum bara haus. Við fórum eftir skipulaginu og ég held að það sé það sem skilaði þessu fyrir okkur.“

Stjarnan var yfir allan leikinn þar til að Lovísa kom Gróttu yfir í blálokin. Hafði hún aldrei áhyggjur af stöðunni?

„Nei. Jú, kannski smá. En Gróttukonur gefast aldrei upp og það hefur einkennt okkur í allan vetur. Og af hverju ekki að klára þetta hér.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×