Íslenski boltinn

Haukur Ingi: Þetta verður mikil áskorun

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Haukur Ingi var aðstoðarþjálfari hjá Ásmundi Arnarssyni síðasta sumar. Þeir eru hér saman á hliðarlínunni.
Haukur Ingi var aðstoðarþjálfari hjá Ásmundi Arnarssyni síðasta sumar. Þeir eru hér saman á hliðarlínunni. vísir/daníel
„Það var nú bara hringt í mig í gærkvöldi og núna er ég orðinn þjálfari Keflavíkur," sagði Haukur Ingi Guðnason, nýráðinn þjálfari Keflavíkur.

Hann mun stýra liðinu út þessa leiktíð ásamt Jóhanni Birni Guðmundssyni. Þeir taka við liðinu af Kristjáni Guðmundssyni sem var rekinn í gær.

Sjá einnig: Jóhann og Haukur Ingi taka við Keflavík

„Það var ótrúlega skammur fyrirvari á þessu. Við höfðum ekki mikinn tíma til að hugsa okkur um en við ákváðum að taka slaginn þó svo við hefðum nánast þurft að svara á staðnum. Í raun og veru ekki var aldrei spurning um að taka slaginn," segir Haukur Ingi en hann lætur nú af störfum sem yfirþjálfari yngri flokka hjá Fylki. Hann þakkar Fylki fyrir að sýna sér skilning.

„Hérna er ég að fá tækifæri til þess að stýra mínu uppeldisfélagi þar sem ræturnar liggja hjá mér. Þetta er frábært tækifæri og eiginlega ómögulegt að hafna því.

„Við Jói erum mjög góðir vinir og höfum oft talað um það í gegnum tíðina að það gæti verið gaman að þjálfa saman enda höfum við svipaða hugmyndafræði í knattspyrnunni. Þetta verður mikil áskorun og virkilega krefjandi verkefni."

Það er óhætt að segja að verkefnið sé krefjandi enda er Keflavík á botni Pepsi-deildarinnar með aðeins eitt stig eftir sex leiki.

„Ég hef einhverjar hugsanir um hvað þarf að laga en það þarf að skoða það betur. Mótið ræðst ekki á næsta leik en það sem þarf helst að laga er varnarleikurinn. Ég veit að Kristján er hæfur þjálfari en stundum smella hlutirnir ekki í boltanum. Ef hann vissi hvað væri að þá hefði hann verið búinn að laga það.

„Fyrsta skrefið er varnarleikurinn enda erfitt að vinna leiki kannski 6-5 og 4-3. Það er margt sem við verðum að skoða og vinnan hjá okkur hefst strax í kvöld," segir Haukur Ingi Guðnason.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×