Víkingar setja nýtt met í kvöld þegar þeir spila sinn fyrsta Evrópuleik frá árinu 1992 en ekkert íslenskt félag hefur þurft að bíða lengur á milli Evrópuleikja.
Víkingar bæta nú sex ára gamalt met Framara frá 2009 sem þá spiluðu sinn fyrsta Evrópuleik í 17 ár. Þegar Framarar settu metið höfðu KR (1984) og Keflavík (1994) þurft að bíða lengst eða í fimmtán ár hvort félag.
Víkingar komust síðast í Evrópukeppni eftir að liðið varð Íslandsmeistari 1991 en það liðu alls 8.310 dagar á milli Evrópuleikja Víkinga eða nákvæmlega 22 ár, 9 mánuðir og 2 dagar. Á þeim tíma hafði Víkingsliðið fimm sinnum fallið úr deildinni og fimm sinnum komið upp aftur.
Flest ár á milli Evrópuleikja
23 Víkingur (1992-2015)
17 Fram (1992-2009)
15 Keflavík (1979-1994)
15 KR (1969-1984)
13 KA (1990-2003)
13 Valur (1993-2006)
12 ÍBV (1984-1996)
Engir Evrópudraumar hingað til
Víkingar hafa ekki tekið þátt í Evrópukeppni í 23 ár en fá nú tækifæri til að gera það sem engu Víkingsliði hefur tekist í tíu Evrópuleikjum félagsins frá 1972 til 1992.
Víkingur á nefnilega enn eftir að vinna leik í Evrópukeppni þar sem allir þessir tíu Evrópuleikir félagsins hingað til hafa tapast.
Víkingsliðið skoraði ekki í fyrstu fimm Evrópuleikjum sínum en fyrsta Evrópumarkið skoraði Jóhann Þorvarðarson strax á fyrstu mínútu í útileik á móti spænska Baskafélaginu Real Sociedad í september 1982.
Jóhann skoraði líka í útileik á móti ungverska liðinu Gyor árið eftir og er markahæsti Víkingurinn í Evrópukeppni með tvö mörk.
Síðasta mark Víkinga í Evrópukeppni skoraði Guðmundur Steinsson mínútu eftir að hann kom inn á sem varamaður í 2-4 tapi á móti CSKA Moskvu á Luzhniki-leikvanginum 30. september 1992.
Ekkert íslenskt félag hefur beðið lengur

Tengdar fréttir

Ég veit nánast allt um þetta lið
Víkingur spilar sinn fyrsta Evrópuleik í 23 ár í kvöld þegar liðið tekur á móti Koper frá Slóveníu. Hörður Theodórsson var einn af þeim sem spilaði síðasta Evrópuleik Víkinga gegn rússneska liðinu CSKA Mosvku haustið 1992 og segir hann það hafa verið mikla upplifun.