Hún sagði að í lýðræðissamfélagi þyrfti ekki bara kosningar heldur fjölmiðla í almannaþágu, góða menntun og upplýsta borgara. „Það þarf að ryðja hindrunum úr vegi um samfélagið allt. Aðgengi er forsenda þátttöku og þátttaka er forsenda lýðræðis.“ Með aðgengi sagðist hún eiga við aðgengi að umræðu, samtökum, vettvangi þar sem ráðum er ráðið og svo framvegis.

Róbert Marshall, þingflokksformaður Bjartrar framtíðar, gagnrýndi einnig meirihlutaræðið á þingi. „Stjórnarandstaðan hefur sem betur fer getu til þess að stöðva mál og afstýra stórslysum,“ sagði Róbert en að hans mati hefur „allt verið í steik“ á Alþingi síðustu vikur. „Þið sem eruð að hlusta þið kusuð þetta þing. Ef þið eruð óánægð þá verðið þið að vanda betur valið næst.“ Róbert hvatti kjósendur til að láta ekki glepjast af loforðaflaumi og hvatti kjósendur til að kynna sér kostina betur.
Róbert benti einnig á að hann ætti rétt á sinni skoðun. „Hvaða rugl var þessi leiðrétting?“ spurði hann. „Hvílíkt bruðl. Þetta er mín skoðun, hún er ekki dónaleg, hún á rétt á sér.“