Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar, var stoltur af sínu liði þrátt fyrir 4-1 tap fyrir Celtic í kvöld og 6-1 samanlagt.
Stjarnan komst yfir með marki Ólafs Karls Finsen snemma leiks en Celtic jafnaði metin á 33. mínútu. Rúnar Páll segir að það mark hafi aldrei átt að standa.
„Við spiluðum vel í leiknum, sérstaklega í fyrri hálfleik. Varnarleikurinn var ekki góður þegar þeir skoruðu í upphafi síðari hálfleiks en heilt yfir var ég mjög stoltur af strákunum,“ sagði Rúnar Páll eftir leikinn í kvöld.
„Þeir sköpuðu engin færi í fyrri hálfleik nema í föstum leikatriðum. Mér fannst fyrsta markið þeirra vera brot og mér fannst dómgæslan bregðast þar.“
Hann segir að 4-1 tap gefi slæma mynd af leiknum. „Þeir refsuðu okkur um leið og við gefum færi á okkur. Það var óþarfi að fá þessi tvö síðustu mörk á okkur því við spiluðum vel í stöðunni 2-1. Við hefðum getað jafnað þá og það hefði verið mjög skemmtilegt fyrir okkur.“
„Á 80. mínútu var ég mjög ánægður með liðið og stöðuna í leiknum. Það skemmdi augnablikið að fá síðustu tvö mörkin.“
Hann hrósaði sínum mönnum, sérstaklega fyrir markið og varnarleikinn í fyrri hálfleik. Þá segir hann ljóst að það var brotið á Stjörnumönnum í fyrsta marki Skotanna.
„Hann [Ciftci] ýtir Pablo á Gunnar. Það er bara fríspark. Það er leiðinlegt að fá svoleiðis mark á sig.“
„Dómarinn var drullulélegur í þessum leik. Hann dæmdi illa og var óöruggur í öllum aðgerðum. Það bitnaði á báðum liðum þó svo að það hafi hallað aðeins meira á okkur.“
„Svona er þetta. Það er stutt á milli í þessu en eftir stendur að ég er hreykinn og stoltur af mínum mönnum í þessum tveimur viðureignum.“
„Ég vona að þetta gefi okkur kraft fyrir Pepsi-deildina því við höfum verið að spila feykilega vel. Auðvitað gefur það okkur byr undir báða vængi, sérstaklega ef við getum sýnt að við getum spilað góða vörn.“
Rúnar Páll: Dómarinn var drullulélegur

Tengdar fréttir

Deila vildi blautan völl: Vatnslögnin sprakk
Segir að það gerbreytir aðstæðum að spila á þurrum gervigrasvelli en blautum.

Ólafur Karl: Skotarnir eru hrokafullir og dónalegir
Markaskorari Stjörnunnar var ósáttur við framkomu Skotanna í einvíginu gegn Celtic í forkeppni Meistaradeildarinnar.