Fótbolti

Llorente kominn til Sevilla

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Llorente á að fylla skarð Carlos Bacca hjá Sevilla.
Llorente á að fylla skarð Carlos Bacca hjá Sevilla. vísir/getty
Spænski framherjinn Fernando Llorente er genginn í raðir Sevilla á frjálsri sölu frá Juventus. Llorente fékk samningi sínum við ítalska liðið rift.

Llorente, sem er þrítugur, skrifaði undir þriggja ára samning við Sevilla sem hefur unnið Evrópudeildina undanfarin tvö ár.

Llorente fór til Juventus frá uppeldisfélaginu Athletic Bilbao sumarið 2013. Spánverjinn gerði alls 27 mörk í 91 leik fyrir Juventus en hann varð tvívegis ítalskur meistari með liðinu og einu sinni bikarmeistari.

Sevilla missti Carlos Bacca, sinn sterkasta framherja, til AC Milan í sumar og er Llorente ætlað að fylla hans skarð ásamt Ciro Immobile, lánsmanni frá Dortmund.

Llorente hefur leikið 23 landsleiki fyrir Spán og skorað í þeim sjö mörk. Hann varð heimsmeistari með spænska landsliðinu 2010 og Evrópumeistari tveimur árum seinna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×