„Ég hrökk upp við fréttir af þessum börnum,“ segir Sigríður Heiða Bragadóttir, skólastjóri Laugarnesskóla, sem hefur boðið hinum níu ára Petrit inngöngu í skólann.
Petrit er yngstur systkinanna þriggja, en þau hafa stöðu hælisleitenda og hafa verið búsett hér á landi í um fjóra mánuði. Þau hafa enn ekki hafið skólagöngu hér á landi, því Útlendingastofnun lét hjá líða að sækja um skólavist fyrir börnin. Það var ekki fyrr en í dag, eftir að saga þeirra var sögð í Fréttablaðinu, sem þau fengu inngöngu í skóla. Laura og Janie í Laugalækjarskóla og Petrit í Laugarnesskóla.
Sigríður Heiða segist bjóða Petrit hjartanlega velkominn í skólann. „Ég hlakka bara til að hitta hann,“ segir hún.
Vel er tekið á móti kennitölulausum börnum í grunnskólum borgarinnar, en Útlendingastofnun á að sjá um skólavist fyrir þau. Stofnunin gerði það í dag, en Skúli Á Sigurðsson, verkefnastjóri hælissviðs Útlendingastofnunar, sagði lítið til málsbóta fyrir stofnunina, annað en að í ár sé fjöldi hælisleitenda mun meiri en síðustu ár.
