Útlendingastofnun hefur haft samband við Laugalækjarskóla og Laugarnesskóla og beðið um skólavist fyrir systkinin Lauru, Janie og Petrit. Björn M. Björgvinsson, skólastjóri Laugalækjarskóla, staðfestir þetta.
„Þær eru búnar að fá skólavist, það á aðeins eftir að ganga frá nokkrum formsatriðum, við þurfum örfáa daga til þess að undirbúa þær fyrir skólann,“ segir hann og segir skólann munu taka vel á móti þeim.
Þau hafa dvalið á landinu síðan 1.júní og komu hingað frá Albaníu. Systkinin hafa stöðu hælisleitenda og höfðu ekki fengið inni í skóla þrátt fyrir að Reykjavíkurborg taki á móti börnum sem hafa ekki íslenska kennitölu til að tryggja mannréttindi þeirra. Í ljós kom að Útlendingastofnun hafði ekki sótt um skólavist fyrir börnin.
Skúli Á Sigurðsson, verkefnastjóri hælissviðs Útlendingastofnunar, sagði í gær að það yrði haft beint samband við þá skóla sem næstir eru heimilum barnanna og sagði lítið til málsbóta fyrir stofnunina annað en að í ár er fjöldi hælisleitenda meiri en síðustu ár.
„Það er í rauninni rétt, þótt ég geti alls ekki tjáð mig um málefni einstakra hælisleitenda þá get ég sagt að við höfum lítið okkur til málsbóta annað en að við erum að takast á við þetta verkefni í fyrsta sinn og leysa úr því á sama tíma og við tökum á móti fordæmalausum fjölda hælisleitenda. Við vonumst til að geta leyst málefni þeirra barna sem hafa sótt um hæli en hefur ekki verið tryggð skólavist sem allra fyrst.“
