Handbolti

Íslandsmeistararnir gerðu út um leikinn í seinni hálfleik

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Þórey Anna setti þrjú mörk í kvöld.
Þórey Anna setti þrjú mörk í kvöld. Vísir/Stefán
Gróttukonur unnu í kvöld tíu marka sigur á Fylki í 5. umferð Olís-deildar kvenna í kvöld en góður kafli liðsins í seinni hálfleik gerði útslagið.

Grótta var með fullt hús stiga fyrir leik kvöldsins en Fylkir hafði unnið tvo leiki og tapað tveimur leikjum.

Jafnræði var með liðunum framan af en gestirnir tóku eins marks forskot inn í hálfleikinn í stöðunni 15-14. Þær settu hinsvegar í lás í seinni hálfleik og fengu aðeins á sig sjö mörk.

Gerði það útslagið því Gróttukonur unnu að lokum sannfærandi 10 marka sigur, 31-21 og eru því áfram með fullt hús stiga að fimm umferðum loknum.

Patrícia Szölösi var atkvæðamest í liði Fylkis með níu mörk en landsliðskonan Thea Imani Sturludóttir bætti við fjórum mörkum.

Í liði Gróttu var það Sunna María Einarsdóttir sem var markahæst með níu mörk en næst kom Eva Björk Davíðsdóttir með sex mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×