Handbolti

Slæmt tap hjá Bergischer

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Björgvin Páll og félagar hafa ekki átt góðu gengi að fagna í vetur.
Björgvin Páll og félagar hafa ekki átt góðu gengi að fagna í vetur. vísir/getty
Bergischer, lið landsliðsmannanna Björgvins Páls Gústavssonar og Arnórs Þórs Gunnarssonar, steinlá fyrir Wetzlar, 28-19, á útivelli í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld.

Sóknarleikur Bergischer var afar slakur í kvöld en liðið skoraði aðeins sjö mörk í fyrri hálfleik, gegn 14 hjá Wetzlar.

Arnór Þór skoraði tvö mörk fyrir Bergischer í leiknum en Björgvin varði 11 skot í markinu.

Bergischer er í 15. sæti deildarinnar og hefur aðeins unnið tvo af 10 leikjum sínum til þessa í vetur.

Í B-deildinni vann Emsdetten öruggan 14 marka sigur, 37-23, á Henstedt-Ulzburg.

Ernir Hrafn Arnarson var næstmarkahæstur í liði Emsdetten með sex mörk en þeir Oddur Gretarsson og Anton Rúnarsson gerðu báðir tvö mörk.

Emsdetten er með 11 stig í 6. sæti deildarinnar, einu minna en Aue sem gerði jafntefli við Ferndorf á útivelli, 24-24.

Bjarki Már Gunnarsson og Sigtryggur Rúnarsson skoruðu fjögur mörk hvor fyrir Aue og Árni Þór Sigtryggsson þrjú. Sveinbjörn Pétursson varði fjögur skot í marki Aue en þjálfari liðsins er Rúnar Sigtryggsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×