Handbolti

Umfjöllun og viðtöl: Hapoel - ÍBV 21-25 | Góður sigur Eyjamanna

Guðmundur Tómas Sigfússon skrifar
Theodór Sigurbjörnsson átti góðan leik.
Theodór Sigurbjörnsson átti góðan leik. vísir/ernir
Eyjamenn unnu fjögurra marka sigur á Hapoel Ramat Gan í fyrri leik liðanna í undankeppni Áskorendakeppninnar. Stephen Nielsen lokaði markinu gjörsamlega í kvöld en hann varði 26 skot.

Eyjamenn og Hapoel komust að samkomulagi um það að spila báða leikina í Vestmannaeyjum en þessi leikur telst vera heimaleikur Ísraelanna. Þeir áttu erfitt uppdráttar alveg frá upphitun en þeir virkuðu eins og þeir væru aldrei í sambandi.

Á fyrstu mínútunum lentu Ísraelarnir á vegg, þeir gátu ekki neitt. Eftir átta mínútur og tuttugu sekúndur var staðan orðin 8-0 fyrir Eyjamönnum. Mörkin komu úr öllum áttum en vörn ÍBV var í raun ótrúleg. Hraðaupphlaup fylgja markvörslu og varnarleik en upphafsmínútur leiksins í kvöld voru sönnun fyrir því.

Í liði Hapoel eru tveir leikmenn sem hafa leikið á Íslandi, þeir voru eins og svart og hvítt í kvöld þar sem annar átti stjörnuleik, en hinn átti erfitt uppdráttar.

Jovan Kukobat sem lék með Akureyringum í nokkur ár stóð í markinu en hann átti algjöran stórleik, hann varði 17 skot, mörg hver úr algjörum dauðafærum. Hann hélt Hapoel inni í leiknum og í raun erfitt að hugsa sér hvernig leikurinn hefði farið ef hann hefði ekki staðið á milli stanganna.

Milos Ivosevic lék með Stjörnunni í fyrra en hann spilaði sextíu mínútur í kvöld. Hann átti aragrúa af misheppnuðum sendingum en hann skoraði fjögur mörk, úr fjórtán skotum. Það var í raun ótrúlegt að hann hafi spilað eins mikið og raun ber vitni.

Ísraelarnir hrukku í gang eftir mjög brösuga byrjun, vörnin vann betur með Kukobat og þeir fengu þessi auðveldu mörk sem oft er talað um í handboltanum. Í hálfleik munaði aðeins fjórum mörkum.

Síðari hálfleikurinn var mun jafnari en þar byrjuðu leikmenn Hapoel frá fyrstu mínútu. Vörnin og Stephen héldu þó áfram að vera í stuði og því erfitt fyrir Ísraelana að saxa á forskotið. Þeim tókst einungis að minnka muninn niður í þrjú mörk nokkrum sinnum.

Stemningin í húsinu var virkilega góð en Stephen Nielsen varði vítakast frá hægri skyttu Hapoel í stöðunni 17-20, þá var leiknum nánast lokið en mark frá Ísraelunum hefði hleypt lífi í leikinn.

Eyjamenn luku leiknum ágætlega og innbyrtu fjögurra marka sigur sem er gott veganesti fyrir seinni leik liðanna á sunnudaginn. Eyjamenn halda því sigurgöngunni sinni áfram sem spannar nú sjö leiki.

Arnar Pétursson: Hefði verið sáttur með fjögurra marka sigur í Ísrael

„Ég er ekki sáttur með spilamennskuna hér í dag, ég verð að viðurkenna það. Ég er sáttur við að hafa klárað þetta og sigrað þennan leik,“ sagði Arnar Pétursson, þjálfari Eyjamanna, eftir fjögurra marka sigur gegn slöku ísraelsku liði í kvöld.

„Við byrjuðum þetta virkilega vel og vorum flottir í tíu mínútur en svo gáfum við eftir og vorum ekkert spes, restina af leiknum,“ sagði Arnar en Eyjamenn byrjuðu leikinn ótrúlega og komust í 8-0 á fyrstu átta mínútunum.

„Við svo sem vissum að þetta væri ágætislið, þetta eru skynsamir strákar og margir góðir í handbolta en þeir eru svoldið að þreifa á okkur fyrstu mínúturnar.“

„Svo spila þeir aðeins inn á vörnina hjá okkur og hvað við erum að gera varnarlega og við gefum eftir á sama tíma þegar við erum komnir í 8-0. Það er samspil ýmissa þátta sem verður til þess að við hleypum þeim auðveldlega inn í leikinn.“

Hverju þurfa Eyjamenn að breyta, ef einhverju, fyrir leikinn á sunnudaginn?

„Við þurfum að halda áfram að spila okkar bolta og vera 100% allan tímann, það er samt lítið sem við þurfum að breyta þannig séð.“

„Hefðum við verið í Ísrael og unnið þar með fjórum hefðum við verið mjög sáttir en ég hefði viljað fá betri leik, líka að við hefðum gefið aðeins meira af okkur upp í stúku og fengið allan þennan fjölda af fólki sem kom, með okkur. Við gerum það á sunnudaginn,“ sagði Arnar en mætingin í Íþróttamiðstöð Vestmannaeyja í kvöld var frábær.

Magnús Stefánsson: Þeir voru ekki vaknaðir í byrjun leiks

„Já ég er ánægður með sigurinn, maður er alltaf ánægður með sigur,“ sagði glaður fyrirliði bikarmeistara Eyjamanna, eftir fjögurra marka sigur í Áskorendakeppni Evrópu í kvöld.

„Það er margt sem við getum gert betur og margt sem við getum lagað fyrir næsta leik, en ég er að sjálfsögðu ánægður með sigurinn.“

Margir voru á því að Eyjamenn hefðu getað unnið leikinn með fleiri en fjórum mörkum, hvað segir Magnús um það?

„Jú við hefðum getað það, ég veit ekki hvað gerðist þarna á kafla hjá okkur í fyrri hálfleik, hvort að menn hafi slakað á, en þeir fóru allavega að bíta aðeins frá sér. Ég hefði viljað vinna þetta stærra en fjögurra marka sigur eða hvað sem það var, ég er mjög sáttur með það.“

„Þeir voru ekki vaknaðir í byrjun leiks. Við verðum værukærir og hleypum þeim inn í þetta og óþarflega nálægt okkur. Við gerðum allavega nóg til að sigra leikinn.“

„Við þurfum að fara yfir okkar sóknarleik og ýmislegt sem við getum lagað þar, við vitum sjálfir hvað það er.“

„Gamla klisjan, þegar vörn og markvarslan smellur hjá okkur, þá erum við ógeðslega góðir.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×