Sport

Arnar Helgi: Best að smíða stólinn sjálfur

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Arnar Helgi Lárusson með stólinn sem hann smíðaði sjálfur.
Arnar Helgi Lárusson með stólinn sem hann smíðaði sjálfur. vísir/stefán
Arnar Helgi Lárusson úr Njarðvík keppir í hjólastólakappakstri á heimsmeistaramóti fatlaðra í frjálsíþróttum sem fram fer í Doha í Katar síðar í þessum mánuðinu.

Arnar keppir á stól sem hann smíðaði sjálfur, en honum finnst það betra en að kaupa stól að utan. „Ég smíðaði þetta sjálfur, en það eru samt ákveðnir staðlar sem ég þarf að fylgja í þessu sporti. Hann má ekki halla of mikið og má ekki vera of langur né of stuttur,“ segir Arnar Helgi.

„Flestir eru með sérsmíðaða stóla. Aðrir láta smíða þetta fyrir sig en mér finnst best að gera þetta sjálfur.“

„Fyrstu stólarnir sem ég notaði voru keyptir, en þetta þarf að vera svo svakalega sérsmíðað. ÞVí er best að gera þetta sjálfur. Ég veit hvað ég vil og ég breyti því sem þarf. Stóllinn er náttúrlega helmingurinn af íþróttinni og íþróttamaðurinn hinn helmingurinn,“ segir hann.

Arnar er ekki hátt skrifaður af þeim sem keppa á HM, en hvað ætlar hann sér að gera í Doha? „Ég er lélegastur af þeim sem eru skráðir til leiks en ég ætla ekki að verða í síðasta sæti. Ég er alveg ákveðinn í því að færa mig upp heimslistann,“ segir hann.

„Ég get það. Ég hef æft eins og brjálæðingur í allt sumar og ef ég skila því í keppni sem ég er að gera á æfingum veit ég að ég kemst talsvert upp heimslistann,“ segir Arnar Helgi Lárusson.

Viðtalið má sjá í spilaranum hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×