Handbolti

Tíu marka sigur og fullt hús hjá Ljónunum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Alexander Petersson, Stefán Rafn og félagar ætla að verða meistarar.
Alexander Petersson, Stefán Rafn og félagar ætla að verða meistarar. vísir/getty
Alexander Petersson, landsliðsmaður í handbolta, skoraði fjögur mörk í tíu marka sigri Rhein-Neckar Löwen, 31-21, á útivelli gegn Balingen í þýsku 1. deildinni í handbolta í kvöld.

Sigurinn var aldrei í hættu hjá gestunum sem voru níu mörkum yfir í hálfleik, 20-11. Stefán Rafn Sigurmannsson komst ekki á blað í kvöld.

Þetta er tíundi sigur Ljónanna í röð og er liðið efst í deildinni með 20 stig eða fullt hús. Það hefur sjö stiga forskot á Melsungen og stefnir hraðbyri að Þýskalandsmeistaratitlinum þó mótið sé rétt svo byrjað.

Kiel komst aftur á sigurbraut í kvöld eftir tap gegn Löwen í síðustu umferð. Lærisveinar Alfreðs Gíslasonar unnu Eisenach á útivelli, 32-22.

Sænski hornamaðurinn Nicklas Ekberg var markahæstur hjá Kiel með sex mörk, en meistararnir hafa byrjað mótið illa og eru með 14 stig eftir tíu leiki.

Ólafur Bjarki Ragnarsson skoraði fjögur mörk fyrir Eisenach sem er með fjögur stig í fallsæti eftir tíu umferðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×